2.3.2010 | 05:44
Íbúalýðræði og gagnsæi fjórflokksins
Árið 1990 þegar samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Kópavogs hófst lofaði Gunnar Birgisson, oddviti Sjálfstæðismanna, að ekki yrði hróflað við Fossvogsdalnum. Fyrir kosningar reyndu allir flokkar að höfða til tilfinninga kjósenda enda höfðu flestir kjósendur þá skoðun að dalinn bæri að vernda. Í Morgunblaðinu 22. maí 1990 sagði Gunnar:
Fossvogsbraut var þurrkuð út af kortinu og þetta fallega útivistarsvæði, þessi perla okkar, var vernduð. Síðan þurfum við að halda vel á spöðunum með að vernda þetta svæði.
Síðan eru liðinn mörg ár og Sjálfstæðisflokkurinn búinn að marg svíkja þetta loforð. Þó það að hafi orðið leiðtoga skipti í Sjálfstæðisflokknum þá eru þeir sem nú skipa efstu sæti flokksins eftir prófkjör þeir sömu og stóðu með Gunnari í því að ganga á umhverfið í Fossvogsdal.
Dæmið um Fossvogsdal er lýsandi fyrir fjórflokkinn. Það er ekki hægt að treysta því sem frambjóðendur hans segja fyrir kosningar. Eftir kosningar er allt gleymt og grafið.
Þess vegna geta t.d. íbúar í vesturbæ Kópavogs ekki treyst því að núverandi minnihluti í bæjarstjórn muni ekki halda áfram með áform núverandi meirihluta í skipulagsmálum á Kársnesinu komist þeir í meirhluta!
Á auka bæjarstjórnarfundi í júlí 2008 lýstu forystumenn beggja minnihlutaflokkanna, Samfylkingar og Vinstri grænna því yfir að það gengi ekki að bæjarbúar stjórnuðu því hvernig skipulag bæjarins væri framkvæmt!!
Við í Frjálslynda flokknum spyrjum: Ef ekki bæjarbúar, hverjir þá? Spilltir stjórnmálamenn?
Frjálslyndir hyggja á framboð í næstu bæjarstjórnarkosningum í Kópavogi. Verði flokkurinn í aðstöðu til mun hann algjörlega blása út af borðinu öllum hugmyndum núverandi meirihluta í skipulagsmálum á Kársnesinu. Frjálslyndir vilja stokka spilin upp á nýtt í skipulagsmálum í Kópavogi. Skipulagsmál verða ekki útfærð nema í samráði og með vilja íbúa. Þess vegna hefur flokkurinn sett á borðið mjög skýrar tillögur hvernig koma megi í veg fyrir yfirgang bæjarins í skipulags- og umhverfismálum eins og núverandi meirihluti hefur iðkað síðastliðin 20 ár.
Við ætlum að innleiða íbúalýðræði í Kópavogi. Það verður meðal annars gert þannig að krefjist 25% kosningabærra íbúa, kosninga um eitthvert ákveðið skipulags eða umhverfismál þá verði bæjarstjórn að verða við því. Með þessu móti hefði yfirgangur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á Kársnesi verið kæfður í fæðingu. Eða fengið framgang ef íbúar hefðu kosið á þann veg.
Skilaboð okkar í Frjálslynda flokknum til kjósenda eru þessi: Þið getið ekki treyst orðum fjórflokksins um íbúalýðræði og gagnsæi, hvorki í sveitarstjórnum né í landsstjórninni.
Frjálslyndi flokkurinn er valkostur í komandi bæjarstjórnarkosningum í Kópavogi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.