22.1.2010 | 18:25
Íbúalýðræði er það sem koma skal!
Þær deilur sem hafa verið uppi í Kópavogi vegna skipulags Kársnessins og náðu hámarki 2007 hafa varla farið framhjá neinum. Deilt er um byggingar-, skipulags og umhverfismál.
Svona deilur eru reyndar ekki nýjar af nálinni í þau ár sem meirihluti Sjálfstæðis og Framsóknarflokks hefur stjórnað hér í bæjarfélaginu. Strax í upphafi samstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1991 urðu snörp átök milli íbúa og meirihluta bæjarstjórnar. Ástæðan var að meirihlutinn ætlaði að heimila að Digraneskirkja yrði byggð milli tveggja íbúðargatna, Lyngheiðar og Melheiðar.Þeim deilum lauk með því að íbúar yfirtóku safnaðarfund og fundurinn samþykkti að skila lóðinni aftur til bæjarins.
Í Kársnesmálinu, má segja að ofbeldi bæjarstjórnar hafi náð alveg nýjum hæðum. Sú valdníðsla og tillitsleysi sem meirihlutinn hefur ástundað gegn bæjarbúum er óþolandi.
Borgarafundurinn sem haldinn var í Salnum á vegum Betri byggðar á Kársnesi sýndi bæjarbúum hve gífurlega sterk samstaða er meðal Kársnesinga um að standa gegn núverandi hugmyndum bæjarstjórnarinnar í skipulagsmálum Kársnessins og hvers megnugir íbúar eru standi þeir saman.
Forystumenn Betri byggðar eiga þakkir skildar fyrir framsetningu á sínu máli sem var bæði rökfast og kjarnyrt.
Frjálslyndi flokkurinn stefnir á að bjóða fram í næstu bæjarstjórnarkosningum með það að markmiði að fella þennan meirihluta.
Eitt af þeim stefnumálum sem við munum standa fast á er að innleiða í Kópavogi íbúalýðræði. Það verður sérstakt stefnumál Frjálslynda flokksins í Kópavogi að innleiða í bæjarmálasamþykkt Kópavogsbæjar að bæjarstjórn geti ákveðið að setja skipulagsmál í íbúakosningu.
Einnig að krefjist 25% kosningabærra manna í Kópavogi kosninga um eitthvert umdeilt ákveðið mál, er varðar skipulag og umhverfi, þá verði bæjarstjórn að verða við því. Það er alveg ljóst að vert er að skoða vel hugmyndir sem þessar í ljósi þeirrar valdníðslu í skipulagsmálum sem núverandi meirihluti var gerður afturreka með varðandi Kársnesið og einnig Nónhæð.
Íbúalýðræði er líka öflugt aðhaldstæki gegn hverskonar yfirgangi spilltra stjórnmálamanna og flokka.
Íbúalýðræði er það sem koma skal! X - F
Athugasemdir
Væri ekki bara lýðræðislegt að geta krafist kosninga um fleiri mál en bara umhverfis og skipulagsmál?
Það er svo margt í nærþjónustunni sem sveitarfélögin veita, sem snertir beint og óbeint líf fólks.
Það segir sig líka kannski bara sjálf að ef t.d. 25% kosningabærra manna fara fram á kosningu um eitthvert tiltekið mál, þá er það væntanlega mál sem skiptir miklu máli fyrir marga.
Hafsteinn Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 22.1.2010 kl. 23:26
Jú, það er nefnilega málið. Þetta er mál sem við Frjálslyndir eigum að vera óhræddir við að fara fram með og tala fyrir sem víðtækastri útfærslu á íbúalýðræði. Óhrædd segi ég því fjórflokkurinn er svo hræddur við það, því hann missir bitlinga og völd.
Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.1.2010 kl. 19:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.