Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Göngum úr Strætó bs.

straeto.jpgÞegar ákveðið var að ganga til samstarfs við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um sameiginlegar almennings samgöngur, Strætó bs, var markmið Kópavogs að spara fé og auka þjónustu. Maður hefur á tilfinningunni að hvorugt hafi tekist. Ef eitthvað er hefur þjónusta versnað. Þeir sem reynt hafa að temja sér að nota strætó öðru hverju hafa lent í ógöngum. Það er skemmst frá því að segja að allt of oft hefur ferðalag með strætó gengið hálf brösuglega. Sérstaklega þegar vagnstjórarnir geta ekki sagt hvert för þeirra er heitið vegna vankunnáttu í íslensku.

Stundum hefur það líka verið skrítið að mæta út á stoppistöð og þar stendur rúta. Þó að ljósritað blað hafi verið límt á framrúðu rútunnar sem gefur til kynna leiðar númer er maður samt ekki viss um hvort maður endi niður í Mjódd eða upp í Bláfjöllum. Hver hefur ekki heyrt um eldra fólk sem hefur lent í vandræðum þegar það reynir að ferðast með strætó? Fólk kvartar um að vagnarnir séu ekki endurnýjaðir, þeir séu druslulegir og stoppi á fáránlegum stöðum miðað við þörf.

Það er eitthvað að í þessum rekstri.

Þess vegna leggjum við til að Kópavogur segi upp þessu samstarfi. Endurreisum Strætisvagna Kópavogs. Endurnýjum bæði vagna og leiðir með það að markmiði að gera þjónustuna fría í Kópavogi, þ.e. að það kosti ekkert að ferðast með strætó innan Kópavogs.Það er tímabært að taka strætómálin til endurskoðunar í Kópavogi með það fyrir augum að þjónustan miðist við þarfir bæjarbúa. Undanfarin ár hafa stjórnmálamenn, ekki bara í Kópavogi, nálgast þennan málaflokk af lítilli reisn. Einhverjir kunna að tala um kostnað við að hafa þjónustuna fría. En við bendum á reynslu Reykjanesbæjar og Akureyrar í þessu sambandi.

Það er viðbúið að bærinn muni spara viðhald gatnagerðarmannvirkja við það að bæjarbúar hvíli einkabílinn innanbæjar. Fyrir utan að með fríum strætóferðum geta bæjarbúar sparað umtalsvert í bensíni og viðhaldi á einkabílnum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband