16.5.2010 | 21:14
Ný forgangsröðun, íbúum í hag
- Nú á að fara að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaga. Það gefur ákveðið tækifæri. Við viljum nota þetta tækifæri til þess að taka upp notendastýrða þjónustu. Það felur í sér að við ætlum að hinn fatlaði einstaklingur ráði sér sjálfur þá þjónustu sem hann þarf. Það er algjört forgangs atriði hjá okkur að þetta mál sé faglega unnið af hálfu bæjarins og í samstarfi við félög fatlaðra.
- Við viljum að almenningssamgöngur innan Kópavogs verði ókeypis. Sem hluta af því viljum við láta athuga hvort rétt sé að Kópavogur gangi úr Strætó bs. Kópavogur er að greiða 250 300 milljónir á ári í sameiginlegan rekstur Strætó bs. Kópavogur getur örugglega rekið myndarlega fría þjónustu innan Kópavogs fyrir þessa fjármuni. Þetta mun spara umferðarmannvirki, létta undir barnafjölskyldum í Kópavogi og skv. útreikningum FÍB er það 30% launahækkun að leggja einkabílnum. Og þetta sparar bæjarsjóði í gerð umferðarmannvirkja og viðhaldi gatna.
- Við ætlum að umhverfa forgangsröðun þegar kemur að sparnaði í rekstri. Gott dæmi um þetta er þegar bæjarstjóri ákvað að skera niður fríðindi eldriborgara í Kópavogi. Þeir fá ekki lengur frítt í sund. Við segjum þetta ranga forgansröðun. Bæjarstjóri hefði átt að skera niður sín laun niður. Þar með hefðu eldri borgarar fengið áfram frítt í sund í Kópavogi.
- Við ætlum að verja það samfélag sem við eigum í Kópavogi án hækkanna á þjónustu gjöldum eða annarra skattahækkanna. Kópavogur nýtir nú útsvarsprósentuna að fullu en ef ríkið gefur svigrúm á hækkun útsvarsprósentu, eins og sumir þingmenn hafa talað um, þá munum við ekki nýta það. Við eigum að einbeita okkur að því að greiða niður skuldir eins og hægt er.
- Það hefur vart liðið kjörtímabil á valdatíma núverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að ekki hafa komið upp mál þar sem bærinn hefur farið fram með hreinni valdníðslu á hendur íbúum. Mörg mál er hægt að nefna í því sambandi eins og td. Kársnesmálið. Við í Frjálslynda flokknum viljum að bæjarbúar geti veitt sjórnmálamönnum virkt aðhald. Við erum eini flokkurinn sem hefur lagt fyrir kjósendur mjög skýrt hvernig við ætlum að efla íbúalýðræði. Það gerum við með því að bæjarbúar geta krafist kosninga um ákveðin umhverfis- og skipulagsmál hvenær sem er. Fjórflokkurinn í Kópavogi talar um að efla íbúalýðræði í Kópavogi fyrir þessar kosningar en hann er ekki með neinar tillögur um það hvernig hann ætlar að gera það. Af hverju? Vegna þess að gömlu flokkarnir meina ekkert með þessu tali. Tillögur Frjálslynda flokksins eru einfaldar og skýrar. Við ætlum að spyrja íbúana beint að því hvernig þeir vilja að þeirra nánasta umhverfi sé skipulagt. Með þessu móti gerum við stjórnmálamennina snertanlega. Við ætlum að gera hina ósnertanlegu, stjórnmálamenn, snertanlega ekki bara einu sinni á fjögra ára fresti eins og nú er heldur alltaf ef íbúum finnst ástæða til. Á myndinni sem hér fylgir efst með þessari grein má sjá hvernig Fossvogsdalur hefur verið leikinn þrátt fyrir loforð Gunnars Birgissonar, þá oddvita Sjálfstæðisflokksins fyrir 20 árum, um að þarna yrði alltaf útivistarsvæði. Íbúalýðræði er krafa fólksins og við henni ætlar Frjálslyndi flokkurinn að verða að verða.
Helgi Helgason, 1. sæti F-listans í Kópavogi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2010 | 16:54
Stefnumál frjálslyndra fyrir bæjarstjórnarkosningarnar eru:
Opnari stjórnsýsla
- Opnari stjórnsýsla, að innleiða íbúalýðræði í bæjarmálasamþykkt Kópavogs sem felur í sér að 25% kosningabæra íbúa geta krafist kosninga um ákveðin umhverfis- og skipulagsmál.
Umhverfis- og skipulagsmál tekin til endurskoðunar
- Umhverfis- og skipulagsmál í Kópavogi verði tekin til gagngerrar endurskoðunar í samvinnu við íbúa. Þar lítum við sérstaklega til Kársnesins, Lundar og Nónhæðar.
Ekki frekari álögur á bæjarbúa
- Að verja það samfélag sem við eigum í Kópavogi án skattahækkana. Allar frekari hagræðingar sem hugsanlega þarf að ráðast í byrji efst í stjórnsýslunni, ekki neðst eins og oft er. Ef ríkið opnar á hækkun útsvarsprósentu munum við ekki nýta okkur það.
Atvinnumál
- Frjálslyndi flokkurinn vill standa vörð um frelsi eintaklingsins til athafna. En við viðurkennum ábyrgð einstaklingsins gagnvart hverjum öðrum og ábyrgð hins opinbera gagnvart samfélaginu. Bæjaryfirvöld geta gert margt til að hjálpa atvinnulífinu af stað. Í því sambandi nefnum við atvinnusköpunarfélag þar sem bæjarfélagið gæti lagt til frítt húsnæði, við nefnum markaðstorg, samvinnu við gistihús og hótel í bænum og aðra þá sem standa í ferðaþjónustu.
Vöndum okkur í málefnum fatlaðra
- Samfara yfirfærslu málaflokks fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga að þá verði tekin upp notendastýrð persónuleg aðstoð. Við leggjum mikla áherslu á að vandað sé til undirbúnings á flutningi málaflokksins og að haft sé samráð við hagsmunasamtök þeirra sem málið varðar.
Almenningssamgöngur verði fríar innan Kópavogs, 30% launahækkun.
- Að almenningssamgöngur innan Kópavogs verði fríar. Gerð verði úttekt á því hvort rétt sé að Kópavogur gangi úr strætó BS. Samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeiganda er það 30% launahækkun að leggja einkabílnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.5.2010 | 21:26
Við ætlum að innleiða íbúalýðræði
Frjálslyndir í Kópavogi hafa gengið frá framboðslista fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi.
Fyrstu þrjú sætin eru þannig skipuð: 1. sæti skipar Helgi Helgason stjórnmálafræðingur, 2. sæti skipar Ásta Hafberg varaformaður Frjálslynda flokksins og 3. sæti skipar Kolbrún Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar.
Listinn var kynntur á fundi á sumardaginn fyrsta. Helgi Helgason sagði á fundinum að hann myndi ekki taka sæti í stjórnum einkafyrirtækja eða fjármálastofnana verði hann kjörinn bæjarfulltrúi. Hann sagði einnig að hann væri mjög ánægður með þá samstöðu frambjóðenda um að setja það á oddinn sem baráttumál framboðsins að innleiða íbúalýðræði.
Tillögur framboðsins eru mjög skýrar í því efni, ólíkt annara framboða. Frjálslyndir vilja innleiða það í bæjarmálasamþykkt Kópavogs að 25% kjósenda geti krafist kosninga um umhverfis- og skipulagsmál.
Með þessu móti hefðu íbúar á Nónhæð, í Lundi í Fossvogi eða á Kársnesinu getað varist þeirri valdníðslu sem núverandi meirihluti hefur viðhaft í skipulagsmálum á þessum svæðum. Frjálslyndi flokkurinn mun beita sér fyrir því að umhverfis- og skipulagsmál í bænum verði endurskoðuð frá grunni með það að markmiði að íbúar hafi meira um sitt nánasta umhverfi að segja.
Öllum skipulagshugmyndum núverandi meirihluta á Kársnesinu vill flokkurinn henda og byrja upp á nýtt með íbúum svæðisins þar sem þeirra rödd og hugmyndir ráði för.
Frjálslyndir munu hafa endaskipti á forgangsröðun þegar hagræðing er annarsvegar. Nýlega ákvað bæjarstóri að eldriborgarar fengju ekki lengur frítt í sund. Meirihlutinn taldi sig spara 7 milljónir á þessu. Við segjum þetta vitlausa forgangsröðun. Bæjarstjórinn í Kópavogi hefði getað skorið sín laun niður úr 1,7 milljón á mánuði í 1,2 milljónir á mánuði.
Þar með hefðu eldriborgarar fengið áfram frítt í sund og góð heilsa eldriborgara, máttarstólpa þjóðfélagsins, er sparnaður fyrir ríki og bæjarfélög.
Það hefði verið rétt forgangsröðun!
Bloggar | Breytt 4.5.2010 kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2010 | 11:42
Ný stjórn Frjálslynda flokksins í Kópavogi
Á aðalfundi bæjarmálafélags Frjálslynda flokksins í Kópavogi var kjörin ný stjórn.
Formaður var endurkjörinn Helgi Helgason.
Aðrir í stjórn eru:Kolbrún Stefánsdóttir, Ásta Hafberg, Pétur Guðmundsson og Grétar Pétur Geirsson.
Á fundinum var óformlega kynntur listi Frjálslynda flokksins til bæjarstjórnarkosninga í Kópavogi 29. maí. Listinn verður gerður opinber þegar hann hefur verið endanlega afgreiddur frá stjórn félagsins og borinn upp á fundi bæjarmálafélagsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2010 | 08:13
Aðalfundur bæjarmálafélags frjálslyndra í Kópavogi
- Verið að loka vinnu við framboðslista til bæjarstjórnar
Aðalfundur bæjarmálafélags Frjálslynda flokksins í Kópavogi verður haldin.n fimmtudaginn 15. apríl kl. 20:00 í húsnæði flokksins að Lynghálsi 3 í Reykjavík. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Á fundinum verður líka rætt um fyrirhugað framboð flokksins í komandi bæjarstjórnarkosningum þ. 29. maí. Frjálslyndir í Kópavogi eru að ljúka vinnu við að loka framboðslista þannig að það er kjörið fyrir þá sem áhuga hafa á að vera á þeim lista að koma á aðalfundinn og taka þátt í starfinu með okkur.
Einnig er hægt að koma athugasemdum á framfæri við Helga í síma 8976350 eða í pósti á helgihelgason@isl.is.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2010 | 05:44
Íbúalýðræði og gagnsæi fjórflokksins
Árið 1990 þegar samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Kópavogs hófst lofaði Gunnar Birgisson, oddviti Sjálfstæðismanna, að ekki yrði hróflað við Fossvogsdalnum. Fyrir kosningar reyndu allir flokkar að höfða til tilfinninga kjósenda enda höfðu flestir kjósendur þá skoðun að dalinn bæri að vernda. Í Morgunblaðinu 22. maí 1990 sagði Gunnar:
Fossvogsbraut var þurrkuð út af kortinu og þetta fallega útivistarsvæði, þessi perla okkar, var vernduð. Síðan þurfum við að halda vel á spöðunum með að vernda þetta svæði.
Síðan eru liðinn mörg ár og Sjálfstæðisflokkurinn búinn að marg svíkja þetta loforð. Þó það að hafi orðið leiðtoga skipti í Sjálfstæðisflokknum þá eru þeir sem nú skipa efstu sæti flokksins eftir prófkjör þeir sömu og stóðu með Gunnari í því að ganga á umhverfið í Fossvogsdal.
Dæmið um Fossvogsdal er lýsandi fyrir fjórflokkinn. Það er ekki hægt að treysta því sem frambjóðendur hans segja fyrir kosningar. Eftir kosningar er allt gleymt og grafið.
Þess vegna geta t.d. íbúar í vesturbæ Kópavogs ekki treyst því að núverandi minnihluti í bæjarstjórn muni ekki halda áfram með áform núverandi meirihluta í skipulagsmálum á Kársnesinu komist þeir í meirhluta!
Á auka bæjarstjórnarfundi í júlí 2008 lýstu forystumenn beggja minnihlutaflokkanna, Samfylkingar og Vinstri grænna því yfir að það gengi ekki að bæjarbúar stjórnuðu því hvernig skipulag bæjarins væri framkvæmt!!
Við í Frjálslynda flokknum spyrjum: Ef ekki bæjarbúar, hverjir þá? Spilltir stjórnmálamenn?
Frjálslyndir hyggja á framboð í næstu bæjarstjórnarkosningum í Kópavogi. Verði flokkurinn í aðstöðu til mun hann algjörlega blása út af borðinu öllum hugmyndum núverandi meirihluta í skipulagsmálum á Kársnesinu. Frjálslyndir vilja stokka spilin upp á nýtt í skipulagsmálum í Kópavogi. Skipulagsmál verða ekki útfærð nema í samráði og með vilja íbúa. Þess vegna hefur flokkurinn sett á borðið mjög skýrar tillögur hvernig koma megi í veg fyrir yfirgang bæjarins í skipulags- og umhverfismálum eins og núverandi meirihluti hefur iðkað síðastliðin 20 ár.
Við ætlum að innleiða íbúalýðræði í Kópavogi. Það verður meðal annars gert þannig að krefjist 25% kosningabærra íbúa, kosninga um eitthvert ákveðið skipulags eða umhverfismál þá verði bæjarstjórn að verða við því. Með þessu móti hefði yfirgangur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á Kársnesi verið kæfður í fæðingu. Eða fengið framgang ef íbúar hefðu kosið á þann veg.
Skilaboð okkar í Frjálslynda flokknum til kjósenda eru þessi: Þið getið ekki treyst orðum fjórflokksins um íbúalýðræði og gagnsæi, hvorki í sveitarstjórnum né í landsstjórninni.
Frjálslyndi flokkurinn er valkostur í komandi bæjarstjórnarkosningum í Kópavogi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2010 | 16:41
Sá málaflokkur sem hefði átt að hlífa – aldraðir fái áfram frítt í sund í Kópavogi.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að aldraðir á Íslandi er sá hópur sem hefur orðið fyrir hvað mestri kjaraskerðingu við hrun íslenska bankakerfisins. En aldraðir á Íslandi er hörku fólk, það er ekki að barma sér, heldur bítur á jaxlinn og virðist auðmjúkt fórna sér fyrir komandi kynslóðir.
Það breytir því ekki að þeir hafa orðið fyrir miklu óréttlæti. Þeir sem sennilega hafa tapað mest í bankahruninu af sínu sparifé eru aldraðir. Þar var einn skellur. Svo voru kjör þeirra skert af alþingi, bæði í tryggingakerfinu og tekjutenging var lækkuð, þar var annar skellur. Og nú hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Kópavogi ákveðið að afnema þau sjálfsögðu fríðindi að aldraðir fái frítt í sund í Kópavogi. Þetta er ekki mikið sem bæjarfélagið segist spara á þessu, 7 milljónir.
Vissulega þarf að sýna aðhald í rekstri bæjarins en þessar 7 milljónir hefði átt að taka annarstaðar. Það hefði t.d. mátt skerða laun bæjarstjórans sem eru um 1.7 milljón á mánuði að manni skilst, fyrir utan aðra bitlinga.
Það hefði til dæmis mátt leggja niður embætti upplýsingafulltrúa Kópavogsbæjar sem er algjörlega óþarft. Bara með því einu hefði mátt spara meira en bærinn telur sig hafa sparað með því að ráðast á aldraða og taka af þeim réttinn að komast frítt í sund.
Embætti upplýsingafulltrúa er gæluverkefni sem fyrrum bæjarstjóri Kópavogs, Gunnar Birgisson, setti á stofn. Nú, svo væri gaman að vita hvort gamall bussines partner Gunnars sé ennþá á launaskrá bæjarins. Hvalrekinn mikli frá Álftanesi, Guðmundur Gunnarsson, en hann er líka bæjarfulltrúi á Álftanesi. Upplýst var í fjölmiðlum að hann hefur um 500þús. á mánuði. En starfsmaður á verkfræðideild bæjarins, kona, sem sinnti sömu vinnu og Guðmundur, en var með lægri laun, gerði athugasemd og fékk samstundis starfslokasamning í hausinn.Með því að senda vin bæjarstjórans fyrrverandi aftur í vinnu á Álftanesi hefði mátt spara yfir 5 milljónir á ári og þar með fengju aldraðir í Kópavogi áfram frítt í sund.
Það er af nógu að taka þegar sparnaður er annarsvegar, bara með því að moka spillingar skítinn eftir sjálfstæðismenn og framsóknarmenn þau tuttugu ár eða svo sem þeir hafa haldið um valdataumana í Kópavogi.
Þar hafa Frjálslyndir verk að vinna. Gott gegni frjálslyndra í næstu bæjarstjórnarkosningum í Kópavogi er líka aðhald fyrir Vinstri græna og Samfylkingu, því eins og þeir hafa hagað sér í landsstjórninni geta kjósendur ekki treyst því að þeir fari ekki einfaldlega í sömu spillingar fötin og framsókn og Sjálfstæðisflokkur eru nú í.
Bloggar | Breytt 17.4.2010 kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2010 | 18:25
Íbúalýðræði er það sem koma skal!
Þær deilur sem hafa verið uppi í Kópavogi vegna skipulags Kársnessins og náðu hámarki 2007 hafa varla farið framhjá neinum. Deilt er um byggingar-, skipulags og umhverfismál.
Svona deilur eru reyndar ekki nýjar af nálinni í þau ár sem meirihluti Sjálfstæðis og Framsóknarflokks hefur stjórnað hér í bæjarfélaginu. Strax í upphafi samstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1991 urðu snörp átök milli íbúa og meirihluta bæjarstjórnar. Ástæðan var að meirihlutinn ætlaði að heimila að Digraneskirkja yrði byggð milli tveggja íbúðargatna, Lyngheiðar og Melheiðar.Þeim deilum lauk með því að íbúar yfirtóku safnaðarfund og fundurinn samþykkti að skila lóðinni aftur til bæjarins.
Í Kársnesmálinu, má segja að ofbeldi bæjarstjórnar hafi náð alveg nýjum hæðum. Sú valdníðsla og tillitsleysi sem meirihlutinn hefur ástundað gegn bæjarbúum er óþolandi.
Borgarafundurinn sem haldinn var í Salnum á vegum Betri byggðar á Kársnesi sýndi bæjarbúum hve gífurlega sterk samstaða er meðal Kársnesinga um að standa gegn núverandi hugmyndum bæjarstjórnarinnar í skipulagsmálum Kársnessins og hvers megnugir íbúar eru standi þeir saman.
Forystumenn Betri byggðar eiga þakkir skildar fyrir framsetningu á sínu máli sem var bæði rökfast og kjarnyrt.
Frjálslyndi flokkurinn stefnir á að bjóða fram í næstu bæjarstjórnarkosningum með það að markmiði að fella þennan meirihluta.
Eitt af þeim stefnumálum sem við munum standa fast á er að innleiða í Kópavogi íbúalýðræði. Það verður sérstakt stefnumál Frjálslynda flokksins í Kópavogi að innleiða í bæjarmálasamþykkt Kópavogsbæjar að bæjarstjórn geti ákveðið að setja skipulagsmál í íbúakosningu.
Einnig að krefjist 25% kosningabærra manna í Kópavogi kosninga um eitthvert umdeilt ákveðið mál, er varðar skipulag og umhverfi, þá verði bæjarstjórn að verða við því. Það er alveg ljóst að vert er að skoða vel hugmyndir sem þessar í ljósi þeirrar valdníðslu í skipulagsmálum sem núverandi meirihluti var gerður afturreka með varðandi Kársnesið og einnig Nónhæð.
Íbúalýðræði er líka öflugt aðhaldstæki gegn hverskonar yfirgangi spilltra stjórnmálamanna og flokka.
Íbúalýðræði er það sem koma skal! X - F
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.1.2010 | 18:11
Göngum úr Strætó bs.
Þegar ákveðið var að ganga til samstarfs við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um sameiginlegar almennings samgöngur, Strætó bs, var markmið Kópavogs að spara fé og auka þjónustu. Maður hefur á tilfinningunni að hvorugt hafi tekist. Ef eitthvað er hefur þjónusta versnað. Þeir sem reynt hafa að temja sér að nota strætó öðru hverju hafa lent í ógöngum. Það er skemmst frá því að segja að allt of oft hefur ferðalag með strætó gengið hálf brösuglega. Sérstaklega þegar vagnstjórarnir geta ekki sagt hvert för þeirra er heitið vegna vankunnáttu í íslensku.
Stundum hefur það líka verið skrítið að mæta út á stoppistöð og þar stendur rúta. Þó að ljósritað blað hafi verið límt á framrúðu rútunnar sem gefur til kynna leiðar númer er maður samt ekki viss um hvort maður endi niður í Mjódd eða upp í Bláfjöllum. Hver hefur ekki heyrt um eldra fólk sem hefur lent í vandræðum þegar það reynir að ferðast með strætó? Fólk kvartar um að vagnarnir séu ekki endurnýjaðir, þeir séu druslulegir og stoppi á fáránlegum stöðum miðað við þörf.
Það er eitthvað að í þessum rekstri.
Þess vegna leggjum við til að Kópavogur segi upp þessu samstarfi. Endurreisum Strætisvagna Kópavogs. Endurnýjum bæði vagna og leiðir með það að markmiði að gera þjónustuna fría í Kópavogi, þ.e. að það kosti ekkert að ferðast með strætó innan Kópavogs.Það er tímabært að taka strætómálin til endurskoðunar í Kópavogi með það fyrir augum að þjónustan miðist við þarfir bæjarbúa. Undanfarin ár hafa stjórnmálamenn, ekki bara í Kópavogi, nálgast þennan málaflokk af lítilli reisn. Einhverjir kunna að tala um kostnað við að hafa þjónustuna fría. En við bendum á reynslu Reykjanesbæjar og Akureyrar í þessu sambandi.
Það er viðbúið að bærinn muni spara viðhald gatnagerðarmannvirkja við það að bæjarbúar hvíli einkabílinn innanbæjar. Fyrir utan að með fríum strætóferðum geta bæjarbúar sparað umtalsvert í bensíni og viðhaldi á einkabílnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)